Uppskriftir

 

LJÚFFENGAR OG HOLLAR EGGJAPÖNNUKÖKUR ÚR FJÓRUM HRÁEFNUM

Amerískar pönnukökur eru vinsælar á dögurðar- eða “brunch” hlaðborðum landsmanna. Þessi týpa af pönnukökum gefur hinum hefðbundnu ekkert eftir þegar kemur að bragði en þessar eru hins vegar miklu hollari auk þess að vera hrikalega fljótgerðar og innihalda einungis fjögur hráefni!

Banana-oat-pancakes-new-1.jpg

HRÁEFNI

1 stór vel þroskaður banani
2 meðalstór egg
1 bolli Sandhóls haframjöl
1 tsk kanill

AÐFERÐ

Blandið öllum hráefnum vel saman í blandara eða matvinnsluvél.

Hitið pönnu á meðalhita og steikið pönnukökur upp úr örlitlu smjöri eða Sandhóls repjuolíu.

Berið fram ylvolgar pönnukökur, t.d. með smjöri og osti, Nutella eða hlynsýrópi og ferskum bláberjum.


Marglitað og meinhollt kínóa salat

Þetta er stór uppskrift sem dugar fyrir allt að 12 manns, til dæmis sem sniðugur grænmetisvalkostur á veisluborðið, en einfalt er að minnka hlutföllin fyrir minni hópa!

kínóa.jpg

INNIHALD
2 ½ dl hvítt kínóa
2 ½ dl rautt kínóa
2 msk Sandhóls repjuolía
1 saxaður laukur
2 hvítlauksgeirar
1 lítri grænmetissoð (soðið vatn og tveir teningar af grænmetiskrafti t.d. frá Knorr)
1 rauð paprika, söxuð
1 gul paprika, söxuð
1 stór gulrót, rifin
2 vorlaukar, saxaðir
2 þroskuð avocado, afhýdd og skorin í teninga

Sítrónu- og myntudressing:
1 ¼ dl Sandhóls repjuolía
3 msk sítrónusafi
2 msk fersk mynta, söxuð
½ tsk cumin
Öllum hráefnum í dressingu blandað saman í krukku með loki og hrist vel.

AÐFERÐ

1. Hitið stóran pott yfir meðalháum hita og ristið kínóa, hrærið hratt, þar til kínóað fer að gefa frá sér “popphljóð” eða í u.þ.b. 6 mínútur.
2. Hellið kínóa úr pottinum og geymið til hliðar.
3. Hellið Sandhóls repjuolíu í pottinn yfir meðalháum hita. Steikið lauk þar til hann verður mjúkur, bætið þá hvítlauk í pottinn og eldið í eina mínútu til viðbótar.
4. Bætið ristuðu kínóa og grænmetissoði í pottinn og hitið að suðu. Setjið lok á pottinn og leyfið að malla í u.þ.b. 20 mínútur.
5. Fjarlægið pottinn af hellunni og látið standa í 10 mínútur. 
6. Í stórri skál, blandið saman elduðu kínóa, rauðri og gulri paprika, gulrótum, lauk og avocado. 
7. Hellið sítrónu- og myntudressingu yfir kínóasalat og blandið vel saman. 
8. Berið strax fram.

 


GÆSALÆRACONFIT

Við fengum Friðgeir Inga Eiríksson matreiðslumeistara til að galdra fram uppskrift af gómsætum rétti úr lærum gæsa, sem veiðimenn eiga oft í vandræðum með að nýta. Prófaðar voru nokkrar gerðir af kryddmarineringu og að lokum var smakknefnd Sandhóls sammála um að eftirfarandi uppskrift geri gæsalæri að lostæti.

goose confit.jpg

INNIHALD

10 gæsalæri (andalæri eru einnig góð í þessa uppskrift)
2 pokar klettasalat
1-2 flöskur af Sandhóls repjuolíu

Marinering:
500 gr gróft salt
50 gr sykur
5 stk svört piparkorn
1/2 stk kanilstöng
3 stk einiber
3 stk negulnaglar
3 stk hvítlauksgeirar
3 stk lárviðarlauf
ferskt timian

Salatdressing:
2 dl Sandhóls repjuolía
2 dl rauðvín
1 tsk Dijon sinnep
2 msk hindberjaedik
1 tsk hunang

AÐFERÐ

Allt hráefni í marineringu er sett í matvinnsluvél og blandað í u.þ.b. 30 sekúndur. Setjið hluta blöndunnar í form eða mót og leggið læri ofan á. Stráið blöndunni yfir lærin. Það er í lagi að stafla lærum ofan á en gæta þarf að því að lærin séu hjúpuð kryddblöndunni. Setið í kæli í tvær klukkustundir. Skolið eftir tvo tíma og þerrið vel.

Lærin eru sett í eldfast mót og Sandhóls repjuolíu er helt yfir svo að það fljóti yfir lærin. Eldið við 100°C í 2,5-3 klst. Takið lærin úr mótinu og látið olíu leka vel af.

Klettasalati er dreift á fat og gæsalæri sett ofan á.

Salatdressing er gerð þannig að rauðvín er soðið niður þar til að 1-2 msk verða eftir. Öllu hráefni er síðan blandað saman, sett í krukku og hrist. Borið fram með réttinum.

Hægt er að borða þetta sem aðalrétt, en einnig er eitt gæsalæri á mann tilvalinn forréttur.